asdsadasdas

Andra saga #4

February 11th, 2010

Jæja, þá er komið að fjórðu sögunni í seríunni um Andra Stussy og ævintýri kappans. Að þessi sinni var hann staddur á Akureyri og fékk mikla aðstoð frá Ásgeiri.

Þannig var að þeir félagar sóttu Norðurland heim og ákváðu að fá sér aðeins í glas. Til að gera langa sögu stutta þá voru þeir á heimleið til Tryggva sem býr rétt fyrir utan Akureyri og fundu það út að best væri að taka hjól sem lá á vergangi og hjóla á því til Tryggva.

Ekki létu þeir staðar numið þar heldur komu við á einhverjum polli á Akureyri sem mér skilst að sé kallaður Pollurinn. Þar gerði Andri sér lítið fyrir, stökk inn að pollinum og stal gæs álíka hratt og Brynjar klárar 1l Pepsi og 1 pakka af fjólubláum Tröllatópas. Gæsina setti hann inná sig og gerði sig líklegan til að halda áfram að hjóla. Ási ætlaði nú ekki að vera minni maður og gerði heiðarlega tilraun til að nappa svani. Hann varð þó að láta í minni pokann þar sem svanurinn var ca 2 metrum hærri en hann og hvæsti og var með dólg.

Þannig að þeir félagar hjóluðu niður Gilið á Akureyri, sem er brattasta brekka sem ég hef séð á ævinni, Ási að stýra og Andri sat og steig pedalanna með gæsina góðu innan á peysunni. Ekki vildi betur til en svo að þeir brotlentu neðarlega í brekkunni ógurlegu, rúlluðu nokkra hringi og eyðilögðu hjólið góða. Hafa ber í huga að gæsin var ennþá innan á Andra.

Nú voru góð ráð dýr. Hjólið ónýtt og leigubílapeningarnir höfðu klárast á barnum. Þeir töltu áleiðis af stað og vonuðust til að geta komist á puttanum. Þeim varð að ósk sinni þegar mikill öðlingur stöðvaði og bauð þeim far. Andri settist aftur í, feginn að vera loksins á leiðinni heim.

Eftir smákeyrslu þá verður bílstjórinn var við hljóð og undarlega hreyfingu í aftursætinu og spyr Andra: “Ertu með eitthvað innnan á þér eða?” Andri svarar neitandi að sjálfsögðu og reynir að laga og hemja gæsina hvað hann getur og nær að hrista athygli bílstjórans af sér. Sem betur fer er ekki löng keyrsla og þeir komast út á áfangastað “heilu og höldnu”.

Daginn eftir kemur mamma hans Tryggva inn í herbergið hans til að vekja drengina og bjóða þá velkomna í dýrindis morgunmat sem hún hafði græjað fyrir þá. Þegar hún lítur inn sér hún þrjá áfengisdauða drengi (Tryggvi hafði farið fyrr heim kvöldið áður) og eina gæs sem var búin að skíta út allt herbergið og hljóp út frelsinu fegin. Það er skemmst frá því að segja að drengirnir fengu ekki notalega vakningu þann morguninn.

Febrúar

February 4th, 2010

Uss hvað tíminn líður hratt! Hjörtur að verða fjögurra ára og bjórvissuferðin er á morgun. Ég er búinn að setja inn nýja könnun. Ég var að lesa Fréttablaðið í morgun og rak þar augun í að Freddy Krueger hefur verið valinn mesta illmenni sögunnar. Ekki marktækt val þar sem ég var ekki hafður með í ráðum en það verður heldur betur ráðin bót á því núna. Hjálpið til við að móta söguna og nýtið ykkar atkvæði vel.

Þessi gaur er ekki með þeim heppnari í bransanum. Hann reyndar lítur út eins og Michael Jackson þannig að kannski á hann framtíðina fyrir sér og ég þarf að éta hattinn minn. Hver veit?

Janúar

January 24th, 2010

Er að verða búinn. Hér sit ég í strætó um daginn og hugsa: “Þetta er merkilegt. Það er vetur og mér er ekki kalt á tánum (mér er nefninlega alveg ofboðslega kalt á tánum á veturna). Það á nú eftir að rætast úr því, janúar og febrúar eru eftir með sín -4° skemmtilegheit.” En nei, janúar er að verða búinn!!!!! Það er bara febrúar eftir með sínar hugsanlegu -4°sem eru ekki líklegar miðað við veturinn sem er að verða búinn. Það er búið að vera stórkostlegt veður í vetur og við hér í birtingardeild Internet-Gests fögnum því gríðarlega og sendum út fagnaðarkveðjur til fátæku barnanna í Breiðholti með tilheyrandi pompi og prakt.
En að öðru. Eins og fram kom í fyrri skrifum þá tók Einar sig til og snaraði í eitt stk sælkeraklúbbinn Jónas. Hann fær einstakar kveðjur fyrir framlag sitt til heimsins. Hann fær samt örugglega ekki kveðjur frá Hirti. Þannig liggur nefninlega í málinu að Einari datt í hug að elda mexíkanska súpu með kjúklingi og hektara af chili pipar. Þar sem að Hjörtur getur ekki lagt sér til munns neinn sterkari mat en vatnsglas þá var að sjálfsögðu fjandinn laus. Ég sjálfur fékk reyndar snert af heilablæðingu við að borða þessa súpu þar sem hún var sirka 400° á fahrenheit og gæti hæglega séð Hveragerði fyrir orku í 18 ár. Við komum að Hirti á þvottaherbergisgólfinu, þar sem hann lá í fósturstellingunni, söng Erykah Badu og ranghvolfdi í sér augunum. Einar sótti þá dýrara smyrslið sitt og fór með ljóð á meðan hann hlúði að Hirti eins og vængbrotnum fugli. Hjartnæm stund, verð ég að segja.
Svo er maður sem fær verðlaun vikunnar. Um daginn var stormur. Lögreglan var búin að biðja fólk um að vera heima hjá sér vegna hættu við að fjúka til Garðabæjar og það vill enginn. Ég og Rósa vísuðum þessari bón Lögreglunnar til föðurhúsanna og fórum í bíó. Sáum Sherlock Holmes sem var ágætis skemmtun og fær meðmæli undirritaðs. Á leiðinni heim úr bíóinu var skyggni 0 metrar, grenjandi rigning og svínslegt rok. Allt í einu öskrar Rósa eins og hún hafi vaknað á Breiðabliks leik og ég hamraði á bremsuna hraðar en Chuck Norris hugsar. Þá er einhver bölvaður asni að HJÓLA á móti umferð í þessu ansvítans veðri og var þá staddur svona meter fyrir framan bílinn með aumasta blikkljós sem ég hef séð til að vekja á sér athygli.
Þessi maður fær klárlega verðlaun fyrir að vera maður vikunnar og þau eru ekki af verri endanum, þáttaka á þingflokksfundi Borgarahreyfingarinnar! Til hamingju, hjólandi maður!
Segi þetta gott í bili, er að hugsa nýja könnun, ef það er eitthvert brennandi málefni þá smellið því í komment!

Nýtt ár

January 15th, 2010

Já, maður er ekki af baki dottinn þó svo að ekki hafi komið inn ný færsla síðan Hjörtur fæddist eða í nokkra mánuði. A-gjemli hefur verið upptekinn við að skila inn heljarverkefnum á stærð við Grímseyjarferju og er rétt að detta niður í súrefni núna eftir ruddalega jólatörn. Það sem mér finnst hafa gerst markvert á árinu(markvert þýðir ekki gott endilega):
Hinn nýji íslenski Aríabanki.
Einar Haralds var edrú fram yfir frímínútur.
Ég eignaðist litla frænku (Big like).
Alþingismönnum tókst að verða þroskaheftari með hverri mínútunni.
Einari Ben var hleypt til UK.
Andri Stussy er ennþá lifandi(já, bæði lifur og hjarta starfa “eðlilega”).
Henry Erni Magnússyni hefur ekki enn verið hneppt í gæsluvarðhald vegna meintra dólgsláta. “Tilbúningur” segir lögfræðingur hans.

Nú er kjeppinn að fara að skrifa ritgerð. 65 bls af visku verður skilað fyrir vorið og ef allt gengur eftir þá verð ég viðskiptafræðingur með vinnu í Bónus í sumar. Það verður gaman að lifa þá!

En i kvöld er það Jónas. Jónas er sælkeraklúbbur sem Einar Haralds var rekinn úr sælla minninga. Hann tók upp á því í fyrradag að blása til stórveislu og er honum hér með boðið til starfa aftur sem starfsmaður á plani. Vonum að hann töfri eitthvað glæsilegt fram því menn eru hungraðir!

Núna fer ég að koma mér í skrifgírinn aftur og handan við hornið er nýr maður líðandi stundar, Andrasaga og sitthvað brakandi.

Þangað til þá, arriverderci!

Sir Ken Robinson

September 17th, 2009

Þó svo að yfirleitt skrifi ég um hluti sem skipta engu máli og leikskólabörn hrista hausinn yfir, þá verð ég að pósta þessum eðalmanni hérna. Þetta er svo rétt hjá honum. Sérstaklega finnst mér þetta eiga við um Ísland:

Íslandsmeistaramótið í Scrabble

August 15th, 2009

Var haldið á dögunum í Brekkutúninu við dynjandi lófatak. Þeir sem voru mættir til að taka þátt voru: Gestur, Einar, Hjörtur og Árni Jón Birgisson.
Gríðarleg spenna var í mótinu alveg þangað til Einar gerði því að hann fékk 70 stig í fyrstu umferð og þá sáu hinir keppendur sæng sína útbreidda. Einar var númer tvö í röðinni. Restin af þessu móti var svo ekkert spennandi EN boðað verður til móts nr 2 á næstunni sem verður byrjunin á leiðinni til EM í Scrabble. Svo fylgist vel með!

Ef við snúum okkur nú að léttara hjali, þá er það helst að frétta að Mærudagar eru afstaðnir þar sem Einari tókst að hneyksla bæjarbúa enn og aftur (vaknaði læstur inni í bíl, ber að ofan, með gat á hausnum og tequila flösku í fanginu) og er alls óvíst að okkur verði hleypt í bæinn að ári.

Það sem mér þykir þó hafa helst staðið uppúr í sumar er dagurinn sem ég varð óléttur. Nú leggja örugglega margir við hlustir því það er ekki á hverjum degi sem karlmaður verður óléttur (nema í Kína) og þá ekki heldur heljarmenni á borð við mig. Ég er eins og allir vita óopinber fyrirliði Íslands í karlmennsku og varð því vægast sagt hvumsa þegar þetta bar allt saman að garði.

Svo er nú mál að vexti að ég var í fríi í sumarbústaði á Hofsósi. Ég vaknaði þegar mér sýndist svo(karlmennska), fór upp og fékk mér kaffi á fastandi maga(karlmennska). Svo rýndi ég útum gluggann og velti fyrir mér veðrinu og hvort “hann” myndi snúa í norðanátt(fáránlega mikil karlmennska). Eftir þessa venjulegu karlmennskurútínu mína settist ég niður og graðgaði í mig mat(karlmennska). En, svo hætti það bara ekkert!!

Ég sat bara allan daginn að snæðingi. Ég sporðrenndi hverri samlokunni á fætur annarri, drakk kaffi og djús, borðaði ávexti, pizzu, pasta, núðlur og fleira og fleira. Á sama tíma hreyfði ég mig ekki neitt heldur át á mig gat bara. Þannig leiddi ég það út án þess að hlusta á Rósu(karlmennska) að ég væri óléttur(ekki nein rosaleg karlmennska).

Sem betur fer leið þetta tímabil hjá en ég þarf að taka heldur betur á því í ræktinni næstu daga og kalla mig feitabollu.

Í gær var svo síðasti dagur í vinnu. Ég er búinn að fara í rómantískt bað með Polar bjór 4,7% og best of CCR í botni til að þvo burt Byko rykið og saurugar hugsanir. Próf í næstu viku og Oddi fram að því. Líkami minn fyllist unaðstilfinningum þegar ég hugsa um Odda og olíuna sem er seld sem kaffi þar. Dásamlegt!

Svo get ég ekki beðið eftir 2010. 2009 bauð uppá efnahagskreppu, flett ofan af viðbjóðslegu viðskiptaferli allra fyrirtækja á Íslandi og síðast en ekki síst Svínaflensu. Hvaða góðgæti skyldi nú leynast handan við 31. desember??

Topp 10 listinn í tónlist

June 24th, 2009

Þar sem ég sit og hlusta á eitt svakalegasta lag allra tíma (Lagið verður á listanum) finn ég mig knúinn til að skvera í eitt stykki topp tíu lagalista. Listi þessi verður órjúfanlegur hér með og ef einhver er ósammála mér þá verður sá að eiga það við sína samvisku. Ég hef ákveðið að það verði eingungis eitt lag per hljómsveit því annars væri líklegt að Ljótu Hálfvitarnir myndu fylla þennan lista. Listinn er ekki endilega í réttri röð en þó má draga ályktun á gæðum laganna þar sem ég ætla að romsa þeim uppúr mér á staðnum að ekki verði ólíklegt að bestu lögin komi fyrst. Þar sem komin er tími á nýja könnun þá er ekki úr vegi að þið sjálf kjósið um bestasta lagið á listanum. Áður en ég smelli listanum inn þá ætla ég að hrósa Einari Ben fyrir frábært komment um daginn. Það kom svona til: Einn maður sagði: “Ástin spyr ekki um aldur.” Einar Ben : “Nei, en Kompás gerir það!”

1. One – Metallica
2. Fans – Kings of Leon
3. Romeo and Juliet – Dire Straits
4. Here I go again -Whitesnake
5. Fear of the dark – Iron Maiden
6. Letting the cables sleep – Bush
7. La Grange – ZZ Top
8. Lookin´ out my back door – Creedence Clearwater
9. Carry on Wayward son – Kansas
10. Dream on – Aerosmith

Skellið ykkar áliti í komments en ekki búast við jákvæðum viðbrögðum!

Vífilfell

June 8th, 2009

Held að ég hafi átt í samskonar viðræðum við Einar Haralds og gat ekkert tjónkað við hann. Maðurinn er náttúrulega rauðhærðari en Steingrímur J og ekkert við því að gera. Einar var til að taka allan vafa af mér að reyna að sannfæra mig á nkv sama hátt og maðurinn í þessum sketch:

Ég held stundum að Einar og Andri séu laumubræður…..

Hvatningaverðlaunin

May 4th, 2009

Þessi maður hérna hefur fengið þann heiður að fá úthlutað Hvatningaverðlaunum heimsins eða Gestinum eins og þau eru stundum kölluð. Verðlaunin eru að sjálfsögðu rómantísk helgi með Steina og vinninga er hægt að vitja á þjónustuborðinu í Smáralind.

Maður stefnir á að verða um það bil með fjórðung af hæfileikum þessa manns til að verða eitthvað í þessum heimi…

Andra saga # 3

April 24th, 2009

Hóhóhó! Jólasveinninn er kominn snemma í ár! Eins og allir vita þá eru kosningar á morgun og því vel við hæfi að snara inn eins og einni Andra sögu.

Eitt sinn voru Kópavogsmenn á góðu tjútti í bænum eins og svo oft áður. Andri var þar fremstur meðal jafningja og Ásgeir (a.k.a Sexkanturinn, a.k.a Smáskyr, a.k.a Ríkisstarfsmaðurinn) fylgdi honum fast á eftir. Eftir margra klukkustunda gaman fannst þeim félögum þó tímabært að halda heim enda skjóðan farin að segja til sín. Óþarft þykir að taka fram að Andra finnst ekki leiðinlegt að borða.

Þeir félagar skeggræddu hvað skyldi snæða fyrir svefn og Andri hafnaði Nonnabita á þeim forsendum að mútta hans ætti fullan frysti af humri. Í ofanálag væri hún í sumarbústað og þeir gætu því farið heim til hans, eldað humarinn og horft á bíómynd meðan góðgætinu væri graðkað í sig.

Ási samþykkti þessa hugmynd fagnandi og iðaði í skinninu eftir að komast í humarveislu a la Andri.

Þegar heim til Andra var komið snaraði Andri fram humrinum, stórri pönnu og hvítlaukssmjöri. Skellti hráefninu á pönnuna og steikti vel.
Þeir félagar settust svo fyrir framan imbann og byrjuðu snæðinginn.
Bragðið var eftir því sem mér best skilst ágætt en undir tönn var þetta ekkert spes. Grjóthart og nánast óætt var veislufangið og enduðu þeir á því að skilja megnið eftir og sofnuðu værum svefni útfrá imbanum.

Daginn eftir kom mamma hans Andra og spurði hvort hann hefði eitthvað verið að vilja í humarinn í frystinum um helgina. “Jáhh!” svaraði Andri og gagnrýndi humarinn eins og rauðvínið í sögu # 1. “Þetta var alveg óætt!” sagði hann sármóðgaður og svekktur yfir annars vel heppnuðu ráni.

Móðir hans tjáði honum þá það að áður en hún hefði farið í bústað hefði hún tekið humarinn í sundur og sett hann í poka og skeljarnar í annan til poka til að sjóða og gera úr humarsúpu. Michelin kokkurinn Andri hafði þá tekið pokann með skeljunum og steikt þær uppúr hvítlaukssmjöri og þeir félagar grandalausir hakkað þær í sig!

Við óskum Andra enn og aftur til hamingju með veisluna og bendum fólki á að gefa honum Veislurétti Hagkaupa í afmælisgjöf.