Posts Tagged ‘Andri’

Andra saga #4

Thursday, February 11th, 2010

Jæja, þá er komið að fjórðu sögunni í seríunni um Andra Stussy og ævintýri kappans. Að þessi sinni var hann staddur á Akureyri og fékk mikla aðstoð frá Ásgeiri.

Þannig var að þeir félagar sóttu Norðurland heim og ákváðu að fá sér aðeins í glas. Til að gera langa sögu stutta þá voru þeir á heimleið til Tryggva sem býr rétt fyrir utan Akureyri og fundu það út að best væri að taka hjól sem lá á vergangi og hjóla á því til Tryggva.

Ekki létu þeir staðar numið þar heldur komu við á einhverjum polli á Akureyri sem mér skilst að sé kallaður Pollurinn. Þar gerði Andri sér lítið fyrir, stökk inn að pollinum og stal gæs álíka hratt og Brynjar klárar 1l Pepsi og 1 pakka af fjólubláum Tröllatópas. Gæsina setti hann inná sig og gerði sig líklegan til að halda áfram að hjóla. Ási ætlaði nú ekki að vera minni maður og gerði heiðarlega tilraun til að nappa svani. Hann varð þó að láta í minni pokann þar sem svanurinn var ca 2 metrum hærri en hann og hvæsti og var með dólg.

Þannig að þeir félagar hjóluðu niður Gilið á Akureyri, sem er brattasta brekka sem ég hef séð á ævinni, Ási að stýra og Andri sat og steig pedalanna með gæsina góðu innan á peysunni. Ekki vildi betur til en svo að þeir brotlentu neðarlega í brekkunni ógurlegu, rúlluðu nokkra hringi og eyðilögðu hjólið góða. Hafa ber í huga að gæsin var ennþá innan á Andra.

Nú voru góð ráð dýr. Hjólið ónýtt og leigubílapeningarnir höfðu klárast á barnum. Þeir töltu áleiðis af stað og vonuðust til að geta komist á puttanum. Þeim varð að ósk sinni þegar mikill öðlingur stöðvaði og bauð þeim far. Andri settist aftur í, feginn að vera loksins á leiðinni heim.

Eftir smákeyrslu þá verður bílstjórinn var við hljóð og undarlega hreyfingu í aftursætinu og spyr Andra: “Ertu með eitthvað innnan á þér eða?” Andri svarar neitandi að sjálfsögðu og reynir að laga og hemja gæsina hvað hann getur og nær að hrista athygli bílstjórans af sér. Sem betur fer er ekki löng keyrsla og þeir komast út á áfangastað “heilu og höldnu”.

Daginn eftir kemur mamma hans Tryggva inn í herbergið hans til að vekja drengina og bjóða þá velkomna í dýrindis morgunmat sem hún hafði græjað fyrir þá. Þegar hún lítur inn sér hún þrjá áfengisdauða drengi (Tryggvi hafði farið fyrr heim kvöldið áður) og eina gæs sem var búin að skíta út allt herbergið og hljóp út frelsinu fegin. Það er skemmst frá því að segja að drengirnir fengu ekki notalega vakningu þann morguninn.

Vífilfell

Monday, June 8th, 2009

Held að ég hafi átt í samskonar viðræðum við Einar Haralds og gat ekkert tjónkað við hann. Maðurinn er náttúrulega rauðhærðari en Steingrímur J og ekkert við því að gera. Einar var til að taka allan vafa af mér að reyna að sannfæra mig á nkv sama hátt og maðurinn í þessum sketch:

Ég held stundum að Einar og Andri séu laumubræður…..

Andra saga # 3

Friday, April 24th, 2009

Hóhóhó! Jólasveinninn er kominn snemma í ár! Eins og allir vita þá eru kosningar á morgun og því vel við hæfi að snara inn eins og einni Andra sögu.

Eitt sinn voru Kópavogsmenn á góðu tjútti í bænum eins og svo oft áður. Andri var þar fremstur meðal jafningja og Ásgeir (a.k.a Sexkanturinn, a.k.a Smáskyr, a.k.a Ríkisstarfsmaðurinn) fylgdi honum fast á eftir. Eftir margra klukkustunda gaman fannst þeim félögum þó tímabært að halda heim enda skjóðan farin að segja til sín. Óþarft þykir að taka fram að Andra finnst ekki leiðinlegt að borða.

Þeir félagar skeggræddu hvað skyldi snæða fyrir svefn og Andri hafnaði Nonnabita á þeim forsendum að mútta hans ætti fullan frysti af humri. Í ofanálag væri hún í sumarbústað og þeir gætu því farið heim til hans, eldað humarinn og horft á bíómynd meðan góðgætinu væri graðkað í sig.

Ási samþykkti þessa hugmynd fagnandi og iðaði í skinninu eftir að komast í humarveislu a la Andri.

Þegar heim til Andra var komið snaraði Andri fram humrinum, stórri pönnu og hvítlaukssmjöri. Skellti hráefninu á pönnuna og steikti vel.
Þeir félagar settust svo fyrir framan imbann og byrjuðu snæðinginn.
Bragðið var eftir því sem mér best skilst ágætt en undir tönn var þetta ekkert spes. Grjóthart og nánast óætt var veislufangið og enduðu þeir á því að skilja megnið eftir og sofnuðu værum svefni útfrá imbanum.

Daginn eftir kom mamma hans Andra og spurði hvort hann hefði eitthvað verið að vilja í humarinn í frystinum um helgina. “Jáhh!” svaraði Andri og gagnrýndi humarinn eins og rauðvínið í sögu # 1. “Þetta var alveg óætt!” sagði hann sármóðgaður og svekktur yfir annars vel heppnuðu ráni.

Móðir hans tjáði honum þá það að áður en hún hefði farið í bústað hefði hún tekið humarinn í sundur og sett hann í poka og skeljarnar í annan til poka til að sjóða og gera úr humarsúpu. Michelin kokkurinn Andri hafði þá tekið pokann með skeljunum og steikt þær uppúr hvítlaukssmjöri og þeir félagar grandalausir hakkað þær í sig!

Við óskum Andra enn og aftur til hamingju með veisluna og bendum fólki á að gefa honum Veislurétti Hagkaupa í afmælisgjöf.